sunnudagur, apríl 17, 2005

Freyja í góðum gír

Ég var að koma úr göngutúr með Freyju og sit hér rennandi blaut við tölvuna. Undanfarna daga hefur tíkin gert mér lífið leitt á göngunni því hún hefur fundið gömul skítug bein sem hún er ófáanleg til að skilja eftir. Þetta, eins og fólk getur ímyndað sér, hægir mjög á gönguhraðanum. Í morgun fann hún eitt slíkt bein og ég náði því af henni. Það þurfti að beita til þess mikilli herkænsku því hún var sko ekki á því að láta það af hendi. Ég er því talsvert hreykin af sjálfri mér fyrir útsjónarsemina en ég steig á beinið og náði því síðan undan hælnum meðan tíkin reyndi að bora sér undir tærnar. Hún var ekkert sérlega blíðleg á svip þegar ég stakk beininu í vasann og lengi á eftir reyndi hún að stökkva upp og troða trýninu í úlpuvasa minn. Það var alveg einstaklega þægilegt að labba með 18 kg hund hangandi úr úlpuvasanum með reglulegu millibili. En mikið var greyið glatt þegar mamma rétti því beinið eftir að heim kom. Núna liggur tíkin hér fyrir framan herbergisdyrnar og nagar af hjartans lyst.

2 Comments:

Blogger Svava said...

í ljósi líkfundana í Stokkhólmi að undanförnu ráðlegg ég þér að kíkja vel á beinin, kannski er þetta Geirfinnur sem tíkin er að bera heim í bútum.

4:18 e.h.  
Blogger Steingerdur hin storskorna said...

Þegar þú segir það Svava mín þá rennur það upp fyrir mér að beinin sem tíkin hefur verið að japla á hafa verið óvenjustór. Ég hélt að þetta væru bara bein úr stórgripum en orð þín opna mér annað sjónarhorn.

4:32 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home