mánudagur, febrúar 28, 2005

Systraþel

Ég hef lítið getað skrifað að undanförnu, enda hefur allur minn tími farið í að ferðast á milli sjúkrahúsa. Gummi fór í uppskurð á mánudaginn var og það gekk allt vel. Bati hans hefur verið framar vonum og hann var útskrifaður og sendur heim til mín í gærkvöldi. Pabbi er aftur á móti búinn að vera mjög veikur af lungnabólgu í rúmar þrjár vikur og engin lyf hafa náð að vinna á sýkingunni. Lungun eru auk þess illa farin af lungnaþembu og nú er svo komið að líklega verðum við að horfast í augu við að hann jafnar sig ekki á þessu. Hann hefur verið út úr heiminum síðan á föstudaginn og liggur þungt haldinn á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi. Þetta er erfiður og ömurlegur tími. Það hjálpar samt óskaplega að eiga svona margar og góðar systur og sá tími sem ég hef setið við sjúkrabeð pabba hefur reynst mér bærilegur vegna þess að þær eru þar líka. Enn og aftur sé ég hversu einstök manneskja Magga systir mín er. Henni er gefin einhver hæfni í mannlegum samskiptum sem hlýtur að vera meðfædd. Meðan enn var hægt að ná sambandi við pabba og tala við hann, þótt hann væri í eigin heimi og um tíma staddur um borð í flugvél sem hann flaug sjálfur, fataðist henni aldrei. Ég sat með kökkinn í hálsinum og vissi varla hvert ég átti að snúa mér en hún spjallaði við hann rétt eins og venjulega og ræddi við hann um flugvélina eins og allt væri eðlilegt. Ég vildi að ég líktist henni meira.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Það hafa fleiri óskað þess að líkjast henni Möggu. Gott að vera búin að fá einn mann heim af spítala í það minnsta.

2:22 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Roðn, roðn.... ég á ekki meira hrós skilið en þið, málið er að mér finnst ég vera í leikriti, þetta er allt svo óraunverulegt, eins og ég standi til hliðar og horfi á....

2:21 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home