þriðjudagur, september 27, 2005

Sýndu mér vini þína

Máltækið segir: Sýndu mér vini þína og ég skal segja þér hver þú ert. Ég veit ekki hvað þetta segir um manninn minn og besta vin hans. Á dögunum varð vinur hans Gumma fyrir því að hann brá sér á Gauk á Stöng eftir fína veislu. Hann og kærastan sátu yfir bjórglasi og höfðu það notalegt þegar kall náttúrunnar varð til þess að hann þurfti að bregða sér á klósettið. Hrafnkell var uppáklæddur í jakkafötum og síðum fínum frakka en inni á salerninu voru leðurklæddir og frekar skuggalegir náungar. Einn þeirra hótaði Hrafnkatli að míga á bakið á honum en minn maður sendi honum tóninn til baka. Stór og stæðilegur leðurtöffari svaraði þá og hvæsti: „Hvað ert þú að gera þig breiðan? Þú skalt bara passa þig.“ „Þegi þú Jóhann,“ svaraði Keli en þetta varð til þess að leðurtöffarinn leit nánar á hann og faðmaði hann og kyssti í kjölfarið. Þetta var sem sé gamall skipsfélagi Hrafnkels og þegar hann hafði losað faðmlagið virti hann okkar mann fyrir sér og sagði eyðilagður: „Hvað er að sjá þig maður? Þú ert allur uppstrílaður. Hvað kom eiginlega fyrir þig?“

Þessi saga minnti mig á það að við hjónin gengum inn í sjoppu norður á Blönduósi í sumar. Þar sat skikkanlegt fólk við hvert borð og drakk kaffi en tveir leðurjakkaklæddir menn með tíu daga skeggrót og blóðhlaupin augu stóðu við afgreiðsluborðið og þömbuðu bjór. Auðvitað rak annar þeirra upp gleðióp þegar hann sá manninn minn og reif í höndina á honum. Ég forðaði mér hins vegar inn á klósett eins hratt og fæturnir náðu að bera mig.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Veit ekki hvort það bjargi nokkru ... en ég losaði mig við Valla vélsög úr vinahópnum eftir að hafa lesið þetta. Höskuldur herðatré og Ólafur máttlausi eru svo í stórhættu!

4:33 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home