Klósettsetur og annað þarfaþing
Ég fékk það verkefni í þessari viku að skrifa auglýsingatexta um klósettsetu. Þetta einstaklega, eftirsóknarverða verk féll mér í skaut því ég sé um þátt hér í Vikunni sem heitir Flott og gott og er auglýsingatengd síða. Einhverjir snillingar eru farnir að flytja inn klósettsetur sem eru margfaldar þannig að ef þú setur niður eina setu dugir hún fyrir þinn rass en ef önnur er látin falla ofan á hana passar þetta fullkomlega fyrir barnsrass. Nú má enginn misskilja mig. Mér þykir það hið besta mál að litlir rassar geti lært að gera þarfir sínar í klósettið án þess að pompa ofan í en það að einhverjum skuli detta í hug að hægt sé að skrifa um fyrirbærið áhugaverðan og aðlaðandi texta kemur mér á óvart. Svo verð ég eiginlega að segja ykkur í trúnaði að myndirnar sem fylgja þessu eru sválega viðbjóðslegar eða nákvæmlega eins og nærmyndir af klósettsetum geta orðið. Meðan ég var að vinna textann datt mér hins vegar stöðugt í hug saga sem ég heyrði þegar ég var í enskudeildinni. Í Bretlandi varð hið versta hneyksli þegar síðar, blúndunærbuxur Viktoríu drottningar voru seldar á uppboði. Menn máttu ekki til þess hugsa að undirfatnaður, næturgagn eða önnur þarfaþing sem Elísabet hefði nýtt sér kæmust í skítugar hendur almennings því var stofnað nýtt embætti. Það var staða Hins konunglega klósettsetuberara (Bearer of the Royal Toilett Seat). Þessi mikilvægi embættismaður fylgir, eftir því sem ég best veit, Betu enn á ferðum sínum um heiminn og skiptir samviskusamlega um klósettsetu í hvert skipti sem gamla konan þarf að bregða sér á salernið. Þessa sögu sagði mér breskur kennari minn í enskudeildinni og ég trúði henni eins og nýju neti og sel ykkur hana á afsláttarprís.
3 Comments:
Ég er viss um að íslenska kóngafólkið okkar, Ólafur og Dorrit, er með Bearer of the Royal Toilet Seat. Þær eru grunsamlegar í laginu skjalatöskurnar sem aðstoðarmennirnir halda á, forsetaritarinn, butlerinn, smakkarinn og það allt fólk!
Þegar Gunnella vinkona var í Japan 1992, voru klósettseturnar allar upphitaðar. Hugsið ykkur lúxusinn. Ætli þetta embætti gangi í erfðir btw ? 5. kynslóð konunglegra klósettsetubera ?
Upphitaðar setur eru ekki eini "lúxusinn" á japönskum klósettum. Þarlendum konum er víst meinilla við að láta nokkur hljóð heyrast frá sér á snyrtingunni. Þær ýta bara á sérstakan hávaðatakka og þegar hávaðinn hefst geta þær sprænt í rólegheitunum án þess að það heyrist. Þeir hjá Fróða ættu að taka þetta sér til fyrirmyndar þar sem WC-ið er við hliðina á kaffivélinni og stundum gleymir maður sér alveg við að hlustaði á mismunandi skemmtileg sprænuhljóð og kaffið kólnar ... eða þannig. Heheheheh
Skrifa ummæli
<< Home