laugardagur, nóvember 06, 2004

Af afbrýðisemi og öðrum löstum

Hingað til hefur afbrýðisemi í garð dýranna á heimilinu einkum hrjáð manninn minn. Hann kvartar a.m.k. stundum undan því með helsærðri, hálfbrostinni röddu að ég sé mun betri við kettina en hann. Þegar við áttum tvo gelta fressketti benti ég honum gjarnan á að kettirnir væru kafloðnir og steingeldir og ef hann væri tilbúinn að gangast undir að verða eins yrði hann dekstraður á sama hátt. Kvörtunum hans linnti mjög við þessa uppástungu. Nú hefur hins vegar í fyrsta sinn farið um mig svolítill öfundarstingur vegna gæludýrs. Ég brá mér nefnilega í göngutúr með tíkina fyrir kvöldmatinn og lenti í hellidembu sem stóð dágóða stund. Ég og fósturdóttirin komum rennandi blautar heim. Þegar Gummi sá okkur hljóp hann umsvifalaust eftir handklæði og byrjaði að þurrka hundinn. Ég mátti standa skjálfandi í forstofunni og komst ekki einu sinni framhjá honum inn til að ná í handklæði handa mér. Það lá nefnilega svo á að nudda lífi í kaldann hundinn að um það bil tveir lítrar af vatni láku af mér á forstofugólfið áður en hann hafði tíma til að færa sig ögn svo ég gæti smeygt mér framhjá honum inn til að ná í handklæði handa sjálfri mér. Yes, forgangsröðin er nokkuð ljós á þessum bæ.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Mér þykir leitt að segja þér það Steingerður, en ef ég mætti velja á milli þess að þerra fallegan, vinalegan hund og reyna að þurrka illilegan miðaldra kvenmann, þá myndi hundurinn líka vinna hjá mér.

12:13 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég kannast við þetta. Þegar Uffe Ellemann Jensen heitinn var enn lífs, vissi ég alltaf hvað var á seyði þegar ég heyrði eiginmann minn mæla fram gæluorð undurblíðri röddu. Man ég ekki til þess að hann hafi nokkurn tíma viðhaft þennan raddhreim við mig, konu hans til 29 ára, 4 mánaða og 20 daga. Það sem hugsanlega gerir málið enn verra er að Uffe var feitur, gamall og grár fressköttur, sem auk þess var mjög heimóttarlegur á svipinn........ Sem reyndar gerði hann afskaplega indælan, come to think of it.........

4:51 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home