þriðjudagur, október 26, 2004

Eva er svo skapandi

Þegar Eva var lítil var hún alveg einstakur heimspekingur eins og eftirfarandi sögur vitna um:

Heimspeki um hafragraut

Eva hafði verið í heimsókn hjá afa sínum og ömmu á Akureyri og þegar heim kom sagði spekingsleg við mig yfir morgunverðarborðinu næsta dag:

„Guð vill að ég borði hafragraut á morgnana.“

„Hvers vegna?“ spurði ég sem taldi nokkuð víst að hafragrautur myndi ekki hugnast bragðlaukum dótturinnar.

„Jú,“ svaraði Eva. „Guð er góður og honum þykir vænt um öll börn og afi segir að hafragrautur sé hollasti morgunverður í heimi. Þess vegna vill guð að ég borði hafragraut á morgnana.“
Háleit framtíðaráform

Ég átti erindi í banka og var með Evu í bílnum. Ég taldi að erindið myndi ekki taka langan tíma og bað því barnið að bíða í bílnum. Engin hætta var á ferðum því það var vandlega fest í bílstól. Afgreiðslan í bankanum dróst hins vegar töluvert og ég var orðin mjög óróleg þegar ég kom aftur að bílnum. Barnið sat hins vegar jafnrólegt í stólnum og þegar hún fór.

„Fyrirgefðu, elskan mín, hvað ég lét þig bíða lengi,“ sagði ég. „Ég hélt að röðin ætlaði aldrei að koma að mér.“

„Þetta er allt í lagi,“ svaraði Eva. „Ég sat bara hér og var að hugsa um hvernig ég ætla að verða prinsessa þegar ég verð stór.“
Staðgengill tunglsins
Ég Andri og Eva sátum fyrir framan sjónvarpið að kvöldi til og vorum að horfa á Stand by Me með River heitnum Phoenix í aðalhlutverki. Miklar umræður spunnust milli okkar Andra um hverjir leikarnir væru og hver léki hvern. Þegar hlé varð á samræðum okkar sagði Eva: „En hver leikur tunglið?“ Því einmitt á þeirri stundu sást glampandi tungli í fyllingu á skjánum.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Já, gaman að því að heyra hvað býr í hausnum á afkvæmum okkar. Ég ákvað að vera menningarleg þegar ég bjó í Köben og fara með dóttur mína að skoða Litlu hafmeyjuna. Hún var mjög spennt á leiðinni og hlakkaði mikið til að sjá hina frægu styttu. Þegar við stóðum svo fyrir framan gripinn var kominn skrítinn svipur á barnið. Hún sagði svo eftir nokkra umhugsun: "Mamma, hvað er þessi hafmeyja eiginlega búin að vera lengi dauð ?"

9:58 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Að sjálfsögðu hef ég margar sögur af mínum frábæru afkvæmum. Eitt sinn man ég eftir syni mínum að rista sér brauð, horfði hann ofan í brauðristina með grimmdarsvip og sagði: Stikniði, stikniði...

Dóttir mín sagði eitt sinn þegar hún kom inn eftir leik úti í blíðskaparveðri: Það er svo heitt úti, ábyggilega tuttugasti hiti!!!

Loks vil ég geta þess að Eva var, og er, mjög skarpskyggn. Hún sagði nefnilega eitt sinn að móðir hennar væri brjálheimsk....

3:13 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home