mánudagur, október 11, 2004

Frábært framtak

Ég rakst á grein um dýraathvarf í Bandaríkjunum sem heitir Best friends, www. bestfriends.com, þar sem tekið er við dýrum sem eiga hvergi höfði sínu að halla. Sá sem stofnsetti það heitir Michael Mountain og meðal þess sem sagt er frá í greininn er eftirfarandi:

Sérvitringar og vinnuþjarkar

Mörg dýrin sem koma til Michaels og vinanna eiga sorglega sögu að baki. Þeim hefur verið misþyrmt þau hafa verið yfirgefin og sum pyntuð. Stundum koma dýrin í athvarfið í hræðilegu ástandi en eftir örskamman tíma eru þau farin að þrífast vel og fljótlega er hægt að koma þeim fyrir hjá góðu fólki. Nokkur þeirra fara aldrei og margar ástæður geta legið þar að baki. Sum þeirra eru einfaldlega of skrýtin og sérvitur til að hægt sé að setja þau í fóstur en önnur eru of gömul, of veik eða of fötluð til að hægt sé að sinna þeim inni á venjulegum heimilum. Þessi dýr eru ákaflega merkileg og þau hafa lag á að finna sér hlutverk og stað í athvarfinu.

Meðal slíkra sérvitringa er síamskötturinn Squeaky Pop (ískrandi hvellur) sem aðeins má strjúka upp á eldhúsbekk en hvergi annars staðar snerta hann. Annar einstakur persónuleiki var Ginger, retriever tík sem bjargað var úr þrældómi í myllu. Hún leit á það sem köllun sína að fara eftirlitsferð um landareignina á hverjum morgni og safnaði saman öllum tennisboltum sem hún fann og koma þeim fyrir undir tré. Upp frá því gekk tréð undir heitinu The Federal Reserve (alríkissjóðurinn).

Benton var klumbufættur flækingsköttur sem hafði marga fjöruna sopið á götunni áður en hann kom í athvarfið. Benton var mikill harðstjóri og vildi hafa reglu á öllu í kattanýlendunni. Hann hegðaði sér eins og borgarstjóri þar og tók ævinlega fyrstur á móti gestum sem þangað komu. Honum til heiðurs var nýtt heimili handa köttum með sérþarfir í athvarfinu nefnt Benton House.

Tommy og Tyson var bjargað af götum LA þegar þeir voru kettlingar en þeir ferðuðust um allt með rófurnar kræktar saman. Tyson gat þannig leiðbeint bróður sínum en Tommy var blindur. Haninn Wooster var samtíða þeim bræðrum en hann vildi hvergi sofa nema ofan á kattahrúgu og var engu líkara en hann liti á samanvafða kettina sem hreiðurstæði sitt.

Vitskertur af lyfjatilraunum

Amra var alaskasleðahundur sem tók að sér lögreglustjóraembættið í hundaþorpinu. Kærasta hans hét Rhonda, pínulítill terríer sem ævinlega svaf milli risastórra loppnanna á Amra. Starfsmenn athvarfsins eru þó sérstaklega hreyknir af sögu hundsins Rexy en hann var árum saman notaður til að rannsaka virkni svefnlyfja. Svo miklu magni lyfja var dælt í hann áður en honum var bjargað að hann hafði gersamlega tapað áttum. Hann vaknaði spangólandi, pissaði þar sem hann stóð og réðst á allt sem tönn á festi og reif það í sundur. Hann þurfti að læra upp á nýtt að umgangast aðra hunda en eftir margra mánaða vinnu tókst starfsmönnunum að hjálpa honum til þess að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi. Í dag býr Rexy hjá fullorðnum hjónum í Salt Lake City sem elska hann út af lífinu þótt hann hafi ekki náð sér að fullu.

Árangur eins og sá sem náðist með Rexy er það sem gefur starfsfólkinu, sem flest vinnur í sjálfboðavinnu, hvatningu til að halda áfram. Sjálfboðaliðar koma alls staðar að úr Bandaríkjunum og þetta er fólk úr öllum stéttum. Sumir koma aftur og aftur. Margt af þessu fólki er í erfiðum störfum þar sem stressið er mikið. Það segir að ekkert frí gefi þeim jafnmikla hvíld og endurnæringu og starf í dýraathvarfinu. Þegar dýrin horfi á það þessum þakklátu augum skipti ekkert annað máli.

Dýrin eiga öll sína sögu. Sum hafa fundist yfirgefin í eyðimörkinni og í öðrum hefur verið kveikt. Mörg þeirra eru svo eftir sig eftir misþyrmingar að það eina sem hægt er að gera fyrir þau er að halda á þeim í fanginu og reyna að hugga þau með nærveru sinni. Sjálfboðaliðarnir segjast stundum eyða heilu dögunum í það eitt að halda á og strjúka dýrum sem eiga bágt.

Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að athvarf í anda Michael Mountain ætti erindi hér á Íslandi, enda nóg af dýraníðingum hér eins og annars staðar.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Já, það er nóg af dýraníðingum á Íslandi, það vantar ekki. Tékkaðu á www.caviesgalore.com, það er alþjóða naggrísasíða, og í gegnum hana er hægt að finna síður fyrir hæli fyrir yfirgefna nagga (gví !). Hægt er að ættleiða þá svipað og með hunda og ketti í animalshelters. Ég myndi verða gvíandi brjáluð í svoleiðis athvarfi !

2:26 e.h.  
Blogger Svava said...

hér eru t.d. sætar myndir af gvíum sem bíða ættleiðingar í usa: http://www.cavyspirit.com/adoptables.htm

2:35 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home