fimmtudagur, október 07, 2004

Pick-up línur

Ótrúlega margir karlmenn virðast trúa því að allt sem þurfi til að heilla konur upp úr skónum sé ein snjöll setning. Þeir sem einhverja skynsemi hafa vita að valt er að treysta á „pick up“ línur en það er til í dæminu að „pick up“ línur séu nægilega snjallar til að brjóta ísinn og verða upphafið að nýjum kynnum. Lítum á dæmi:

„Kysstu mig ef ég hef rangt fyrir mér en heitir þú ekki örugglega Kolrassa?“ Konur sem hafa einhverja kímnigáfu á annað borð myndu alls ekki standast þessa línu og þótt þær færu ekki endilega að kyssa gæjann fyrir það eitt að hafa ekki giskað á akkúrat rétta nafnið þá vekur þetta a.m.k. nægan áhuga til að þær séu tilbúnar til að halda samræðunum áfram. Það má til að mynda alveg hugsa sér að upp úr þessu spretti fjörug umræða um störf mannanafnanefndar.

„Ég er óhugnanlegur, ég er fölur, ég er þinn. Stundar þú annars ekki örugglega galdra?“ Að sjálfsögðu er heppilegast að nota þessa línu á dökkhærða konu í svörtum kjól með illilegan kött á annarri öxlinni. Slysist menn til að nota hana á ljóshærðar, engilfríðar stúlkur mega menn ekki vera of bjartsýnir á að árangur náist.

„Fyrirgefðu en þú líkist alveg óskaplega stelpu sem ég var rosalega skotinn í í átta ára bekk. Varstu nokkuð í Réttó?“ Þessi er frekar gagnsæ en yfirleitt getur konan þó ekki stillt sig um að svara og þótt engin rómantík verði úr þessu veit karlinn a.m.k. hvar hún stundaði grunnskólanám. Við á Vikunni höfum líka frá áreiðanlegum heimildum að þetta virki rosalega vel á grunnskólakennara því spurning sem þessi gefi þeim tilefni til að segja skoðun sína á kostum og göllum íslenska skólakerfisins.

Það er ekkert sem mælir gegn því að konur noti þessar línur til jafns við karla en þá mæli ég með því að þær noti mannsnafnið Jörmundrekur og kvengeri lýsingarorð og nafnorð. En á alvarlegri nótum má benda á að oft er erfitt að kynnast nýju fólki og skemmtilegt ávarp er stundum allt sem þarf til að byrja samræður. Þegar þær eru á annað borð komnar af stað er best að vera bara maður sjálfur, afslappaður og kurteis og reyna ekki að leika eitthvert hlutverk. Einhver vitur maður sagði einhverju sinni að þegar maður heilsaði væri best að segja halló því ef maður segði bless ruglaði það ótal marga í ríminu. Þetta er góð regla í samskiptum við ókunnuga, þ.e.a.s. fylgdu viðteknum umgengnisvenjum og reyndu ekki að brjóta reglurnar svona rétt í byrjun.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Mikilvægt er að minnast á andsvör við Pick-up línum, en ansi oft langar kvenmanninum alls ekkert til að ræða nánar við karlfauskinn sem fyrir framan hana stendur. Þá er gott að hafa gott svar á reiðum höndum. T.d. hið hnyttna: "Why don't you make like a tree and leave?" og svo svarið við góðu gömlu "Haven't I seen you before?" spurningunni, það er: "Maybe, I've been somewhere before". Besta svarið við Kolrössuspurningunni væri auðvitað "já hvernig vissirðu, nú hef ég nú alltaf verið kölluð bara Rassa". Svarið við galdraspurningunni: " Jú, ég kann að galdra og nú læt ég þig hverfa, púff!". Loks svarið við átta ára bekks spurningunni: "Tja, þegar ég var átta ára var ég í skóla hjá Barna og unglingageðdeildinni".

1:41 e.h.  
Blogger Steingerdur hin storskorna said...

Alltaf má treysta því að mín hornótta systir kann ráð til að láta þá hverfa. Sjálf hefði ég reynt að koma með tillögur að því hvernig kyssa á frosk þannig að úr verði prins. En ýmsum henta ýmsar iðnir eins og Hómer sagði og ólíkt hafast menn að.

2:02 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home