föstudagur, október 22, 2004

Er einhver munur á Volkswagen og Opel?

Ég er alveg óskaplega óbílaglögg. Ég er frekar mannglögg en bíla þekki ég ekki í sundur fremur en gráa ketti í myrkri. Um daginn var ég á leið úr bænum ásamt ljósmyndara til að taka viðtal við konu uppi í sveit. Til hagræðingar ákváðum við að hittast á bensínstöðinni efst í Ártúnsbrekkunni. Hann ætlaði að taka mig með í sínum bíl en ég að skilja minn eftir á þessum þægilega stað. Ég mætti tímanlega og lagði bílnum en eitthvað dróst að ljósmyndarinn legði við hliðina á mér svo ég hringdi í hann. „Ég er bara að renna inn á stæðið,“ var svarið í símanum meira að segja áður en mér tókst að bera upp erindið. Rétt í því sem ég hafði kvatt renndi stæðilegur jeppi sér inn í næsta stæði með fullt af töskum og pinklum í aftursætinu. Ökumaðurinn fór út úr bílnum til að huga að farangrinum en ljósmyndurum fylgja jafnan margar töskur, þrífætur og fleira dót. Ég vatt mér út úr bílnum og reif upp hurðina á jeppanum og settist inn í framsætið. Þegar maðurinn opnaði dyrnar sagði ég glaðhlakkalega: „Jæja, Jónatan.“ „Ég er ekki Jónatan,“ var svarað með fýlutón og ég leit á ökumanninn sem reyndist lágvaxinn, miðaldra maður nokkuð feitur um miðjuna en Jónatan er hávaxinn, hálfþrítugur og bráðmyndarlegur. Ég baðst aumingjaleg afsökunar og kom mér eins hratt og kostur var á út úr bílnum. Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég sest upp í vitlausan bíl. Þá eins og nú voru bílarnir eins að lit en annars alls óskyldrar tegundar. Þetta var skömmu eftir að við Gummi kynntumst og við áttum rauðan Fíat. Við vorum á leið í afmæli og vorum orðin alltof sein. Við þurftum að koma við í blómabúð og láta skreyta pakkann og ég skipaði Guðmundi að leggja upp á gangstétt meðan ég hlypi inn. Skreytingin tók ekki langa stund og ég kom út aftur reif upp bíldyrnar hin roggnasta og settist inn. „Af stað með þig,“ rumdi ég þegar ég var sest og fékk svarið: „Ertu viss um að þú viljir fara?“ ´Rómurinn var í senn dimmur og hás allt annað en hinn hunangsæti baritónn eiginmanns míns. Ég leit á ökumanninn sem var stórvaxinn, feitur maður með alskegg. Guðmundi hefur aldrei verið hægt að lýsa með neinum af þessum einkennum. Ég brá við skjótt og skreiddist kafrjóð út úr bílnum og inn í þann næsta fyrir aftan þar sem Guðmundur sat hálfdauður úr hlátri.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Það eru fleiri í fjölskyldunni sem hafa farið flatt á þessu mín kæra. Einu sinni vorum við Svanhildur, eins og svo oft áður, í þeim leik að reyna að vera fyrstar inn í bílinn hjá pabba og mömmu. Á þessum tíma áttu þau gráan Skoda. Við vorum í Hagkaup og Svanhildur þýtur á undan okkur á brjáluðum hraða, opnar afturhurð á gráum Skoda og skellir sér inn. Þegar ég kem að bílnum veifar hún til mín glaðhlakkaleg á svip. Ég veifaði til baka, alveg jafn glaðleg og labba svo að Skoda foreldra okkar sem var ca. 3 stæðum í burtu. Það var heldur sauðsleg Svanhildur sem skömmu síðar smeygði sér inn í bílinn þar :-)

9:35 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Innlegg elstu (og gáfuðustu) systur Steingerðar:
Þið munið eflaust eftir frásögn minni af okkur Gyðu þegar við settumst upp í bílinn hennar að loknu vel heppnuðu saumaklúbbskvöldi. Reyndist stýrið læst og var engin leið að koma bílnum í gang. Leituðum við loks á náðir eiginmanns saumaklúbbshaldarans og töldum málinu reddað þar sem maðurinn er bifvélavirki. En það breytti akkúrat engu, stýrið var læst sem fyrr. Eftir japl, jaml og fuður leit hann loks á okkur og sagði: Eruð þið örugglega í réttum bíl? Þá varð okkur litið aðeins neðar í götuna og viti menn; þar stóð annar bíll sömu gerðar og í sama lit og steinhélt kjafti. Eftir að við máttum mæla fyrir hlátri sagði Gyða: Ég skil ekkert í mér að fatta þetta ekki, þessi bíll er svo miklu snyrtilegri en minn, ég hefði átt að sjá það strax...

11:07 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home