þriðjudagur, október 26, 2004

Hvenær er maður of snemma og hvenær of seinn

Í gærkvöldi mætti ég galvösk í boð til Svanhildar systur minnar. Mér þætti engin ástæða til að nefna þetta hér nema vegna þess að þetta var í annað skiptið sem ég mætti í þetta tiltekna boð. Þannig var nefnilega að upphaflega stóð til að halda þetta á fimmtudegi en síðan var því frestað fram á mánudag. Á fimmtudagskvöld leit ég á klukkuna og sá að hún var tuttugu mínútur gengin í níu. Ég hentist út og keyrði í loftköstum heim til Svanhildar. Þegar ég renndi í hlaðið í Skaftahlíðinni sá ég að klukkan hafði skyndilega seinkað sér um klukkustund. Ég hafði litið vitlaust á úrið heima og í raun var klukkan aðeins 24 mínútur yfir sjö. Ég hringdi engu að síður dyrabjöllunni, gekk galvösk inn á stofugólf hjá systur minni og sagði glaðlega: „Ég er víst heldur snemma á ferð. Ég leit vitlaust á klukkuna.“ Um leið og ég reyndi að halda brosinu sá ég að systir mín var vægast sagt illa undir boðið búin. Hún var ekki farin að vaska upp, barnaþvottur um alla stofu og ég sá hvergi vott af kökuveitingum. Skýringin kom þegar Svanhildur vatt sér glaðleg út af baðherberginu og svaraði: „Þú hefur litið anski skjálgum augum á klukkuna systir góð, því þú ert fjórum dögum of snemma.“ Ég knúsaði litla frænda minn nokkra stund en sneri síðan heim. Þegar ég opnaði dyrnar heima tók Guðmundur á móti mér með illkvittnislegu glotti. „Þetta var frekar snöggsoðið boð, Steingerður mín.“ Jú, ég varð að viðurkenna það. Á mánudagsmorgun hringdi svo Svanhildur og spurði hvort ég hefði hugsað mér að mæta þá um kvöldið. Í nokkrar mínútur velti ég fyrir mér hvort það borgaði sig að fara í sama boðið tvisvar en sagði svo að víst myndi ég koma. Ég fékk nefnilega engar kökur í fyrra skiptið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home