mánudagur, nóvember 01, 2004

Eigingirni í auglýsingum

Mikið lifandis ósköp og skelfing leiðast mér þessar auglýsingar sem nú tröllríða öllu og ganga út á að maður eigi að sitja einn að lífssins gæðum. Það er sagt að auglýsingar endurspegli tíðaranda betur en nokkuð annað og sé svo þá er tíðarandinn sem nú ríkir best kominn í vel innsiglaðri flösku. Þetta gengur iðulega svo langt að konur og menn eru tilbúin að berja á og ljúga að sínum nánustu til að koma í veg fyrir að þeir nái í bestu bitana af kjötinu, bíllykilinn, svona fullorðinsmorgunkorn og ávaxtahlunk. Ég er svo fáránlega gamaldags að ég hélt að eina ástæðan fyrir því að menn nenntu almennt að hafa fyrir því að vinna hörðum höndum fyrir einhverju væri ánægjan af því að njóta þess með öðrum og þá sérstaklega manns nánustu. Þótt ég þekki dauðsyndina græðgi persónulega og við höfum bundist traustum böndum hef ég ekki nokkra löngun til að sitja ein að heilu lambalæri eða sleikja ís meðan eitthvert barn úr fjölskyldunni starir stórum augum á eftir hverjum bita. Skyldi þetta hafa með aðra dauðasynd að gera þ.e.a.s öfundina? Að fólk í dag sé svo gegnsýrt af öfund að þá sjaldan að það finni fyrir því að aðrir öfundi það veki það með því djúpstæða ánægju? Spyr sá sem ekki veit.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home