föstudagur, október 28, 2005

Nú er frost á Fróni

Týra litla vakti mig í morgun með væli og mjálmi. Hún vildi komast út en var fljót að skreiðast inn aftur með snjóklepra í feldinum. Hún rann til og frá á þakinu og ætlaði aldrei að komast upp í þakgluggann. Yellow var hins vegar hin hressasta og kunni því ágætlega að það blési svolítið. Ég fór í kraftgallann en samt var mér svo kalt að ég nötraði og skalf. Þegar við komum niður að andapolli upphófst ægilegur söngur og garg í öndum og gæsum. Ég skildi alveg hvað þær voru að segja. nefnilega: „Passiði ykkur krakkar. Þarna er guli ógnvaldurinn sem alltaf er að pína okkur. Næst söfnum við liði og ráðumst á helvítið.“ Yellow kippti sér ekkert upp við þetta heldur snuðraði og tuðraði fram og aftur allt í kringum polllinn. Hún hefði alveg getað haldið áfram lengi enn þegar við komum heim en ég var búin að fá nóg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home