þriðjudagur, október 25, 2005

Já, stundum er botninn suður í Borgarfirði

Ég fór í kvennagöngu í gær og skemmti mér konunglega. Veðrið var dásamlegt, heil hersing af yndislegum kunningjakonum sem ég hafði ekki við að kyssa, enda með harðsperrur í vörunum í dag. Að vísu lenti ég í óvæntri uppákomu. Við mæðgur fórum saman í bæinn og Eva keyrði. Árný vinkona bauð mér að leggja í bílastæðahúsinu hjá sér sem ég var að sjálfsögðu alsæl með. Eva hitti Gretu og einhverja aðrai stelpu og ákveður að halda upp á daginn með þeim og fá sér eitthvað gott í gogginn. Ég kvaddi hana með kossi þegar hún fór en varð ekki jafnsæl þegar ég uppgötvaði örskömmu síðar eftir að hafa boðið systrum mínum far af alkunnri greiðasemi að stúlkubarnið var farið inn í Kópavog með bíllykilinn minn. Þetta var hálfbjálfaleg uppákoma. Eva varð síðan að keyra niður í bæ á litla bílnum til að láta mig hafa lykilinn. Já, það kemur fyrir fleiri en Bakkabræður að gleyma botninum suður í Borgarfirði.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Já,spaugilegt var það þegar botnlausa systirin þuklaði sig alla í örvæntingafullri leit að bíllyklinum. Auðvitað hefur svona nokkuð aldrei komið fyrir mig, ef einhver t.d. gefur í skyn að ég hafi t.d. ítrekað læst lyklana inni í bílnum eða álíka gleymsku, þá er sá sami að ljúga.

12:17 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Það næsta sem ég hef komist svona hryllingi er að gleyma strætókortinu heima. Það var sko ekkert grín. Ég segi ekki að ég hafi þurft að sofa hjá strætóbílstjóranum ... onei, svo gott var það ekki, en ég fann mikla tortryggni frá þessari elsku ... eins og svona fín frú í Vesturbænum væri að svindla sér í strætó?

10:01 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home