miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Af snjókörlum og þoturössum

Ég brá mér í göngutúr með tíkina í gærkvöldi rétt eins og venja mín er. Veðrið var gengið niður, stjörnubjart og nýfallin mjöll yfir öllu. Þetta var alveg dásamlegt. Við gengum niður í Kópavogsdalinn og þar blasti við okkur stór snjókarl sem einhverjir krakkar höfðu hlaðið. Freyja stansaði þegar hún sá þetta hvíta hrúgald framundan og þefaði óróleg í áttina til þess. Eftir litla stund áttaði hún sig á að karlinn ætlaði ekki að hreyfa sig svo hún færði sig hægt og hægt nær. Henni óx ásmegin og vatt sér að kvikindinu og þefaði. Mikið var vonbrigðasvipurinn á dýrinu bráðfyndinn. Það var alveg eins og hún segði: „Jahá, Much Ado About Nothing. Þetta var þá bara snjór eftir allt saman.“ Við gengum lengra og komum að brekku þar sem nokkrir krakkar renndu sér á þoturössum með miklum skrækjum og gleðiópum. Tíkin gersamlega trylltist. Hún ýlfraði og emjaði, rykkti í tauminn og tvísté á framfótunum af sjúklegri löngun til að komast í fjörið. Ég þorði ekki annað en að halda henni fast því ég vissi að ef hún blandaði sér í leikinn myndi hún hugsanlega bíta einhvern krakkann. Loks tókst mér að draga hana burtu og við komum snjóugar og blautar heim en alsælar með túrinn.

2 Comments:

Blogger Svava said...

Hehe, eins gott að halda fast í Freyju, annars verða þoturassar bitnir af óðum hundi.

1:47 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Which, by the way, will add a new meaning to the expression Jet set...

1:37 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home