föstudagur, desember 02, 2005

Foreldraskelfandi leikföng

Elstu barnabörnin hennar mömmu eru þrír drengir, Steinar Örn, Andri og Atli. Mamma var að jafnaði mjög vinsæl hjá piltunum þegar þeir voru litlir því hún gaf þeim yfirleitt leikföng í jólagjöf og hið undarlega var að það voru byssur sem framleiddu hávaða, trommur eða önnur hljóðfæri og jafnvel smíðadót. Það var eiginlega ómögulegt að gera upp við sig hvort gamla konan gerði þetta til að gleðja barnabörnin eða ergja foreldrana. Sennilega hefur þetta tvennt blandast í hennar huga því eitt sinn er hún gaf Andra þroskaleikfang, sem samanstóð af pinnum sem raða átti í borð og reka þá síðan í gegnum það með hamri sem fylgdi, sagði hún: „Gefðu litlu barni hamar og veröldin verður einn stór nagli.“ Hún hreinlega ljómaði þegar hún sagði þetta en mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Það kom líka á daginn að barnabarnið skildi mjög fljótt að það var margt í veröldinni sem var þess virði að berja á því. Kommóðan mín ber enn áverkana. En ástæðan fyrir því að ég rifja þetta svo vandlega upp hér er að Nanna Rögnvaldar vísar í grein á blogginu sínu um það hvernig einhleypt fólk getur náð sér niður á barnafólki með því að gefa börnunum vel valdar gjafir. Þeir sem hafa áhuga geta skoðað á www.nannar.blogspot.com.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég er ekki frá því að mamma eða fyrrverandi tengdamamma heitin (nei, ég drap hana ekki) hafi gefið stráknum mínum alveg eins dót sem hann hamraði á endalaust. Elsku Steinkan mín, þú hefur eflaust uppgötvað ógurlegt samsæri ... verst að þú ferð að komast á kvikindislegan ömmualdurinn og munt án efa gefa barnabörnum þínum nákvæmlega eins leikföng, hávær og stórskemmtileg! Múahahahahahahahahah

1:03 e.h.  
Blogger Svava said...

Múhahah indeed ! Ein vinkona mín gaf syni annarrar vinkonu stórskemmtilegt tæki í jólagjöf. Það var í laginu eins og lest og gaf frá sér 10 mismunandi lestarhljóð. Verra pyntingatól hef ég ekki séð. Sú sem fyrir skelfingunni varð bíður enn eftir því að hin fjölgi sér til að ná hefndum. Gæti þurft að bíða lengi þó....

9:14 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home