Morgunstund gefur gulan hund
Ég er eiginlega alveg búin að missa mitt áður fullkomna moguntímaskyn. Ég er vakin á bilinu 6.30 - 7.30 á morgnana af gulum hundi sem er bæði fullkomlega úthvíldur og yfir sig glaður á þessum tíma. Tvö ár hafa nægt til að venja mig á að vakna um þetta leyti og í gær gerði ég mér grein fyrir að morguntímaskyn mitt var gersamlega út úr kú. Ég beið til að mynda spennt til klukkan hálfellefu og hringdi þá í Höllu vinkonu til að bera saman sunnudagskrossgátuna mína við hennar. Halla var ekki vöknuð þegar ég hringdi. Sonur hennar svaraði hinn hressasti, enda enn í próflestri. Fyrir örfáum árum var Halla í mínum huga með árrisulli manneskjum og þess vegna taldi ég næsta víst að hún yrði komin á fætur á þessum tíma. Ég hef greinilega misreiknað eitthvað. Sennilega hefur Halla aldrei verið komin á stjá fyrir hádegi, málið bara að ég var alltaf seinni til að vakna en hún. Ég lét mér þetta að kenningu verða og hringdi ekki næsta símtal fyrr en tólf. Þá hringdi ég í son minn og tengdadóttur. Þar svaraði ekki nokkur sími. Hið sama gilti um Sigurveigu vinkonu, mömmu og Möggu systur. Ég fer að hallast að því að ég verði að fá mér barómet sem bendir á heilbrigða og eðlilega upphringitíma um helgar.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home